27.9.2011 | 21:43
Námstefnugleði og spennandi haust framundan

Nú er námstefna Lærum og leikum með hljóðin yfirstaðin og var ansi margt um frábært fagfólk leikskóla og grunnskóla landsins meðal annarra síðastliðinn föstudag.
Frú Vigdís Finnbogadóttir setti námstefnuna með glæsibrag og færði okkur nær stöðu tungumála almennt í heiminum. Bryndís Guðmundsdóttir tók svo við og leiddi okkur um heim hljóðkerfisvitundar og tilurðar framburðarefnisins Lærum og leikum með hljóðin. Það eru nefnilega heilmikil gagnreynd fræði á bak við námsefnið og dásamlegt að það skuli fá jafn mikla viðurkenningu og útbreiðslu og raun ber vitni.
Sigríður Arnardóttir (Sirrý), fjölmiðlafræðingur með meiru hélt svo hressandi fyrirlestur (ef ekki gjörning) þar sem hún hristi verulega upp í fólki, létti lund og gaf okkur ýmis dæmi um hvernig hægt er að vera fyrirmynd í framkomu.
Síðari hluti námstefnunnar var tileinkaður því fagfólki sem unnið hefur með efnið inni á leikskólunum. Þar mátti sjá frábæra leiki með hljóðin í tengslum við efnið og alls kyns hugmyndir að því að gera efninu sem best skil. Að lokum var hjartnæmur og hvetjandi fyrirlestur móður sem á unga stúlku í talþjálfun hjá Bryndísi Guðmundsdóttur undir yfirskriftinni ,Að gefast ekki upp'.

Nýjustu vörulínur Lærum og leikum voru kynntar og seldar á námstefnutilboðum en þar ber hæst að nefna hreyfimynddiskinn góða sem talsettur er af Felix Bergssyni og Védísi Hervöru Árnadóttur.
Hér má sjá höfundinn, Bryndísi Guðmundsdóttur, fjalla um Lærum og leikum með hljóðin í frumkvöðlaþætti ÍNN: http://inntv.is/Horfa_á_þætti/Frumkvöðlar$1316995260
Fylgist með okkur hér og á fésbókinni! Það er svo gaman að læra og leika með hljóðin :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.