29.4.2011 | 11:36
Lærum og leikum með hljóðin - hvernig efni er það?
Allt efni sem tengist ,,Lærum og leikum með hljóðin er vandað og uppfyllir kröfur um útlit og efni sem hentar börnum. Þykk spjöld og sérlakkaðar síður leyfa litlum fingrum ítrekaða skoðun og gert er ráð fyrir að foreldrar byrji snemma að skoða fyrstu grunnbókina með börnum sínum og leika með hljóðin. Líflegar myndir Höllu Sólveigar Þorgeirsdóttur og Búa Kristjánssonar gera hljóðanámið auðvelt og spennandi. Efnið er sjónrænt og grípandi með tilvísan í hljóð táknmynda fyrir hvert hljóð sem eflir hljóðvitund og þekkkingu barnanna. Grunnbókin inniheldur táknmyndir og orð með öllum samhljóðum í þeirri röð sem íslensk börn tileinka sér hljóðin og byggir jafnframt á áralangri reynslu höfundar af talþjálfun á Íslandi.
Kennslu- og aðferðafræði efnisins felst i því að við innlögn og leik með málhljóð er hljóðið tengt við ákveðna táknmynd t.d. mótorbáturinn lýsir P hljóðinu = ph heyrist þegar vélin í bátnum fer af stað; S... heyrist þegar það springur á bílnum og loft lekur út um litla gatið sem kom á dekkið, o.s.frv. Sögupersónurnar Máni og Maja fylgja lesandanum út alla bókina og útskýra á einfaldan hátt myndunarstað hljóðanna og koma með tillögur um leiki.
S og R bækurnar leggja sérstaka áherslu á þau hljóð með stigvaxandi þyngd og æfingu í hljóðkerfisþáttum sem undirbúa barnið fyrir lestur og rétta hljóðmyndun.
Skólar um allt land nota framburðaröskjurnar með öllum spila og myndaspjöldum og foreldrar geta æft samhliða vinnu skóla eða talmeinafræðings í heimabyggð. En bækurnar eru seldar sérstaklega til foreldra og fást í bókaverslunum. Bækurnar henta öllum barnafjölskyldum, ekki bara þeim börnum sem eiga erfitt með myndun þessara hljóða
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.